







Mörg þúsund manns á öllum aldri hafa notið leiðsagnar hjá Myndlistaskólanum í Reykjavík undanfarin sjötíu og sjö ár. Í dag bjóðum við bæði upp á fjölbreytt námskeið fyrir börn og fullorðna í vikulegum tímum og fullt nám í dagskóla.
Barna- og unglinganámskeið
Vetrarnámskeið fara fram einu sinni í viku og standa yfir í eina önn (tólf vikur). Krökkunum er alla jafna skipt í fjóra aldurshópa: 4-5 ára, 6-9 ára, 10-12 ára og 13-16 ára. Börnin eru aldrei fleiri en sex í yngsta aldurshópnum og mest tólf á kennara í unglingahópunum. Þannig er tryggt að hvert barn fái persónulega tilsögn við sitt hæfi.
Á sumrin er boðið upp á einnar og tveggja vikna löng námskeið fyrir börn í sumarleyfi. Kennslan fer fram daglega, ýmist fyrir eða eftir hádegi. Krökkunum er skipt í nokkra aldurshópa og þau vinna með margvísleg efni og aðferðir, bæði tvívíð og þrívíð verkefni. Auk þess er farið í vettvangsferðir og unnið utandyra að hluta.
Námskeið fyrir fullorðna
Fullorðinsnámskeiðin eru opin öllum sem hafa náð 16 ára aldri en námskeiðin eru á framhaldsskólastigi. Boðið er upp á fjölbreytt úrval námskeiða fyrir byrjendur og lengra komna.
Grunnur að starfi Myndlistaskólans í Reykjavík var lagður vorið 1946 þegar Félag íslenskra frístundamálara var stofnað en tilgangurinn var að félagsmenn gætu sótt sér tilsögn í myndlist. Kennsla hófst síðla árs 1947 og strax árið 1948 voru barnanámskeið skólans orðin eftirsótt, auk þess sem boðið var upp á kennslu í teikningu, litameðferð, skúlptúr og keramiki fyrir fullorðna.
Allir kennarar eru háskólamenntaðir á sviði myndlistar, hönnunar eða byggingarlistar og lögð er sérstök áhersla á að þeir hafi kennsluréttindi.